Ísland er tjaldstæði – ræða
Hallgrímur Helgason er meðal sýnenda á samsýningunni “Allt sem sýnist – Raunveruleiki á striga 1970 -2020” sem opnaði á Kjarvalsstöðum þann 25. júní 2020. Þar sýnir hann 5 málverk úr seríu sinni “Málað á myrkur” frá árinu 2015, og einnig málverkið stóra af Karlakórnum Heimi frá árinu 2000. Við opnunina flutti Hallgrímur ræðu sem birt er hér, í texta- og video-formi.
Kæru gestir, safnstjóri, sýningarstjórar, kollegar og vinir.
Við erum búin að vera hér mjög stutt, á þessu landi, sem við nefndum Ísland og á móti nefndi okkur Íslendinga. Við erum bara búin að vera hérna í rétt rúm ellefu hundruð ár. Í samanburði við aðrar þjóðir er það eins og vika á tjaldstæðinu í Húsafelli. Ísland er semsagt tjaldstæði. Við erum enn að læra á það. Við erum landnámsfólk.
Já, Íslandið er enn að koma okkur á óvart. Við þekkjum það ekki alveg ennþá. Ísland er aldrei það sem það sýnist vera. Og samband okkar við þetta land er enn á hrifningarstiginu. Við erum bara nýbyrjuð saman, við erum enn rosa hrifin en samt hvarflar að okkur annað slagið að hætta bara með þessum gaur. Hann er svo vanstilltur eitthvað. “Ég meina, hann bara fyllti húsið af snjó eina nóttina, og svo þarna, þegar hann tók út rafmagnið í tvo sólarhringa, og núna í vikunni sópaði hann bara öllum styttunum hennar mömmu niður úr hillunni. Það brotnaði allt. Ég meina við gátum ekkert sofið. Hann var bara að hrista húsið alla nóttina!”
Innst inni erum við ekki alveg búin að sætta okkur við það að vera Íslendingar. Ég meina. Það eru til önnur tjaldstæði sko.
En við vonum samt alltaf það besta. Við erum enn að klæða okkur fyrir sumarkvöld á Íslandi eins og í “gamla landinu” og byrjum að sakna lopapeysunnar um leið og sólin sest. Við reisum höfn á Suðurlandssandi upp á von og óvon. Við ætlum að bora göng fyrir bíla en komumst svo bara inn í þau á bátum. Við höldum enn að hálendið þoli 500.000 rollur á beit. Við trúum því enn að síldin og Geirfinnur séu falin á sama stað, og erum enn að leita.
Við erum enn að læra á þetta land. Við erum til dæmis nýbúin að fatta það að ef þú hleypir lúpínu inn á hálendið kemur hún niður hinumegin. Og ef síminn þinn deyr í Ódáðahrauni þá deyrð þú líklega líka. Við erum líka stundum ótrúlega lengi að fatta hlutina. Við vorum í tíu ár að velta því fyrir okkur hvernig túristabylgjan gæti skilað einhverju til samfélagsins, þú veist, lagað vegina, útrýmt einbreiðum brúm, gert göngustíga, og bara sett upp skilti. Við vorum enn að velta þessu fyrir okkur þegar: Ó? Þeir eru farnir! Bylgjan er búin.
Við erum semsagt hér á tjaldstæðinu og bara rétt nýbyrjuð að mála útsýnið. Ömmusystir mín, Kristín Jónsdóttir, fyrsta konan til að læra myndlist á Íslandi, hóf nám við listaakademíuna í Kaupmannahöfn árið 1911. Það var einungis sex árum eftir að fyrsti íslenski karlinn hóf þar nám, Þórarinn B. Þorláksson. Það eru semsagt bara 115 ár síðan að við lærðum að mála.
(Hann Markús Þór er reyndar með smá athugasemdir við þessa söguskoðun, þetta er soldið bratt finnst honum.)
En já. Fyrstu kynslóðirnar fóru því strax í það að mála landið. Ég meina, það átti eftir að mála það ALLT. Þetta var svo mikið að menn ákváðu að skipta með sér verkum, bara eins og landnámsmennirnir til forna.
“Ókei, Kjarval, þú tekur Hellisheiði og Þingvelli, Ásgrímur þú tekur Húsafell, Jón Stefánsson hálendið, Scheving… Suðurnesin, Suðurland, ha? og sjóinn? Já ókei … jú, þú mátt alveg fá sjóinn líka. En Blöndal, hvað tekur þú? Já, kvenfólkið já … ? Kristín frænka dekkaði heimaslóðirnar fyrir norðan, en líka Laufásveg 69 í Reykjavík. (Konurnar sko voru bara hafðar inní stofu að mála blóm í vasa.)”
Þeir sem hinsvegar fæddust of seint, þegar allt landslag var frátekið hér á Suðvesturhorninu, og nenntu ekki í ferðalög, voru kannski ekki með bílpróf eða áttu ekki jeppa, þeir fóru bara í abstraktið. Drukku bara terpentínu og sáu sýnir, en voru samt að ferðast.
Samt sem áður hélt þessi fyrsta landnámshefð myndlistarinnar áfram í þarnæstu kynslóð. Eins og landnámsmaður helgaði Hringur sér Aðaldalinn, sem sonur hans Þorri fékk síðan í arf (eins og við sjáum hér inni), Lousia tók Reykjavík norður, Eiríkur Smith fékk Kragann og Sverrir Haralds kjördæmið sem hvarf (moldarbörðin). Í minni kynslóð varð skiptingin meira eftir veðri. Georg Guðni tók suddann en Húbert Nói heiðríkjuna á kvöldin.
Annars veit svosem enginn hvað hann er að gera, við bara fálmum eitthvað áfram, hvert okkar á kafi í sínum tíma, aðeins framtíðin fær séð samhengið.
Og nú erum við búin að mála í eina öld, það sem aðrar þjóðir hafa stundað frá því fyrir Endurreisn. Ég meina, gangir þú um síkin í Amsterdam sérðu vel að það er búið að mála öll partý í þeirri borg, allar átveislurnar, hverja einustu vindubrú og öll húsin líka, við þekkjum þetta allt úr listasögunni, gömlu skóna, túlipanana og afskornu eyrun. Í Danmörku kemur ekkert á óvart, það er búið að fara yfir hvern einasta trjálund með olíu og pensli, setja í gylltan ramma og koma honum inn á safn. Rosalega boring alveg.
Við hinsvegar máluðum aðeins með orðum, fallegar sterkar myndir, en úr orðum, á skinn og pappír en ekki striga. Við lærðum að skrifa og kveða og við lærðum að lesa. Og löngu seinna lærðum við svo að mála, en við erum enn að læra að lesa málverk, skoða myndlist. Ég meina, við erum enn að reyna að sjá andlit út úr landslagi, eða þekkja fólkið á myndinni. “Ókei, ég vissi ekki að þú værir systir hans. Nú skil ég verkin þín.” Þetta er svona dæmigerð setning á sýningaropnun. Við erum eins og amatörar í vínsmökkun. “Já, er þetta ekki Camembert Sauvignon?”
Meira að segja íslenska krónan skilur ekki myndlist. Samkvæmt því sem Húbert vinur minn segir seljast dýrustu málverk Breta, eftir Francis Bacon, á sama verði og dýrasta íbúðin í London kostar. Samkvæmt þeirri reglu ættu dýrustu málverk Íslands, Kjarval, Muggur, Kristín, Svavar Guðna & co, að kosta 200 milljónir, en ekki tuttugu eins og þau gera í dag. Söfnin fá svo ekki einu sinni tuttugu milljónir á ári til að kaupa verk… Nei. Við erum enn ekki komin á það menningarstig að meta listina að verðleikum. Fólk sem á peninga fer með þá í Benz-umboðið ef það vantar bíl og í Epal ef það vill fínustu húsgögnin en þegar kemur að myndlistinni er bara farið í IKEA.
Hér vantar menntun. Í heil þrjátíu ár hefur enginn framhaldsskólanemi getað svarað einni einustu myndlistarspurningu í Gettu betur. Ég meina, þessir krakkar vita ekki einu sinni hver Helgi Þorgils er, hvað þá Ragnheiður Jónsdóttir eða Hreinn Friðfinsson. Af því þessi nöfn hafa aldrei verið nefnd í skólakerfinu. Listin er ekki á námsskránni. Heilu kynslóðirnar hafa alist upp við það að listin sé ekki með, að listin sé auka, að listin sé lúsmý á samfélaginu, og samfélagið klóri sér í hvert sinn sem hún er nefnd, og þau sem eru á listamannalaunum séu “á bótum”, eins og listin sé örorka, fötlun.
Ég skora á ykkur á að fara þarna inn í Kjarvalssalinn og þá getiði séð að eitt svona Kjarvalsmálverk útheimtir auðvitað meiri aga, úthald og andlegt erfiði en það að reka heila togaraútgerð í tíu ár, eins og meistari Þórbergur orðaði það svo snilldarlega í Bréfi til Láru.
En hvað höfum við verið að mála síðastliðin 50 ár? Frá því að Nýja málverkið mætti á Skerið upp úr 1980 sýnist mér að flest okkar hafi nú verið að mála innra lífið, ekki það sem sýnist heldur þessar sýnir sem terpentínan veitir. Það kemur nokkuð á óvart, en þegar maður hugsar um það, þá erum við ekki svo mörg sem höfum verið að mála raunveruleikann. En við eigum þó okkar þolgóða kjarna: Eggert Pétursson, Þorra Hringsson, Hlaðgerði Írisi, Sigtrygg Bjarna … allt fólk sem hefur ræktað þennan garð.
Og hér gefur að líta landslagsmyndir, portrettmyndir, málverk af tækjum, af kökum, af myrkri. Hér sjáum við húð hafsins, húð filmunnar, húð listamannsins. Á einum veggnum er athyglisvert samtal feðga yfir tímabrúna; þeir eru stundum að mála sama hólmann, það er einkar ljúf hólmganga í undrabirtu sumarnætur. Og hér er eitt frægasta málverk miðborgarinnar í fullri dagsbirtu og safnasamhengi, og við sjáum mátt listarinnar í unaðslega skemmtilegu málverki af Garðveislu, verki sem lyftir heilum bæjarhluta upp úr grámanum og amstrinu. Og síðast en ekki síst eru hér ný hæfileikanöfn, Helena Margréti Jónsdóttir og Ragnhildur Jóhannsdóttir, sem sýna hér litaglaðar skringimyndir og portrettseríu af femínistum sem á snjallan hátt fá að feisa feðraveldið mitt.
Ég óska sýningarstjóranum Markúsi Þór Andréssyni til lukku með þessa sýn hans á “Allt sem sýnist”. Í titlinum leikur hann með kunnan íslenskan frasa, “Ekki er allt sem sýnist”, vinsælt orðalag sem vitnar um vantrú landans á raunveruleikanum, eitthvað sem hann hefur þróað með sér í sinni stuttu sambúð við tjaldstæðið Ísland. Okkur grunar alltaf að eitthvað annarlegt búi að baki hlutunum, innst inni treystum við ekki einu sinni landslaginu. “Já já, þetta er fallegt fjall en það gæti náttúrlega sprungið yfir okkur á morgun”.
Við hinsvegar, málararnir, höfum verið að mála þetta land, borgir þess, bæi og íbúa, eins og það blasir við okkur, eins og okkur sýnist það vera, og við erum að mála það einmitt vegna þess að það er ekki allt sem sýnist. Við erum alltaf að mála það sem “ekki er” á myndinni, af því að þar er samtalið við áhorfandann, þar er listin. En samt sem áður er þetta “ekki er” “Allt sem sýnist.”
Leave A Comment