Bláa öndin

Við erum enn að jafna okkur á því að hér hafi farið fram alþingiskosningar í skugga lögbannsins á Stundina þar sem íslenskum fjölmiðli var bannað að flytja fréttir af fjárleyndarmálum forsætisráðherra Íslands.

Forsætisráðherra og flokki hans var sýnilega létt, þrátt fyrir örlítið snögglært leikrit um annað, en hið óþægilega svar hans sjálfs við spurningunni hvort hann hafi vitað af lögbanninu, áður en það var sett, rifjast upp aftur og enn.

“Ég get ekki sagt það, nei,” var svar hans.

Setjum nú þetta svar aftan við spurninguna “Hefur þú komið til Kaupmannahafnar?”

“Ég get ekki sagt það, nei.”

Hvað þýðir þá svarið? Það þýðir líkast til að viðkomandi hafi komið á Kastrup, kannski ætlað sér inn í bæ, en síðan hafi ekki gefist tími til þess. Hann hefur þá landfræðilega séð komið til Kaupmannahafnar þótt hann hafi ekki farið inn í bæ. Við getum tekið slíkt svar gott og gilt við spurningunni um Köben, við skiljum það, en gagnvart spurningunni um lögbann er það auðvitað ótækt.

Lögbannið var gífurlegt áfall fyrir lýðræði okkar og þjóðmálaumræðu og setti Ísland á nýjan stað á heimskortinu. Allt í einu vorum við komin í hóp með Tyrkjum, Rússum og fleiri þjóðum þar sem fjölmiðlum er með ýmsum ráðum meinað að flytja neikvæðar fréttir af valdhöfum.

Lögbannsins var krafist af gjaldþrota banka sem forsætisráðherra átti hlut í fyrir hrun hans, andlegs og viðskiptalegs þrotabús sem við vissum ekki að nyti nokkurrar virðingar í samfélagi okkar, níu árum eftir kollsteypu sína. Lögbannið var samþykkt af sýslumanni sem skipaður var af ráðherra úr flokki forsætisráðherra. Sýslumaðurinn er kunnur af stuðningi sínum við umræddan flokk og til eru gamlar fréttir af því að hann hafi gengið erinda hans í kosningum úti á landi, þá starfandi sem sýslumaður þar. Umræddur sýslumaður nýtur því lítils trausts meðal samborgaranna en mikils trausts hjá flokki forsætisráðherra.

Þessi skaðaverk á lýðræðissamfélginu Ísland voru framin á læstum lögfræðistofum og innmúruðum embættisskrifstofum, á svo breiðum og loðnum forsendum að harla erfitt reynist að koma auga á raunverulega gerendur og raunverulegar ástæður fyrir því.

Okkar eina færa leið er því að segja frá þessum viðburðum á erlendum tungumálum, að reyna að útskýra ótíðindin fyrir erlendum vinum, til þess að ná þó einhverri fjarlægð á málið. Sú saga sem þá birtist líkist aðeins frásögnum af rammspilltum einræðisríkjum. Forsætisráðherrann var orðinn svo reiður út í ákveðinn fjölmiðil vegna frétta af viðskiptum hans við gamlan gjaldþrota banka, viðskipti sem hann hafði áður þvertekið fyrir, að stjórnendur þrotabúsins gengu erinda hans í því að fá fram fréttabann á málið. Fréttabannið var síðan samþykkt af embættismanni úr flokki forsætisráðherrans.

Þessa sögu þekkjum við semsagt annarstaðar frá, en glímum enn við innra áfallið sem fylgir því að slíkt hafi gerst á Íslandi.

Ameríkanar eiga góða leið til að lýsa slíku athæfi, þar sem gerningar eru andlitslausir og beinharðar sannanir skortir, svo engin leið virðist fær til að draga fólk til ábyrgðar. Þá segja þeir gjarnan: “Ef það lítur út eins og önd, syndir eins og önd og kvakar eins og önd, þá er það mjög líklega önd.”

Hver setti lögbannið á Stundina?

Bláa öndin.