Hneykslið í hneykslinu

Í kjölfar hruns og byltingar birtast jafnan hinir svokölluðu “lukkuriddarar”, menn sem sjá tækifæri í umrótinu, menn sem eygja sér karríer um kaosið. Samkvæmt orðabókinni þýðir orðið “lukkuriddari”: “hálfgildings glæframaður, ævintýramaður, maður sem treystir að staðaldri á heppni sína.”

Frægasti lukkuriddari sögunnar er án efa Napóelon Bónaparte sem í krafti hersnilli sinnar varð þjóðhetja og birtist síðan í Parísarborg á hárréttu augnabliki, tíu árum eftir byltinguna miklu, og var fimm árum síðar orðinn keisari Frakklands og geisari Evrópu. Napóleon var umbótamaður að mörgu leyti en að lokum var það lukkuriddaramennskan sem felldi hann.

Hérlendis fengum við Sigmund Davíð, sem birtist sem landsins mikli leiðréttari aðeins fjórum árum eftir Búsáhaldabyltingu og gerðist yngsti forsætisráðherra sögunnar. Aðeins þremur áðrum síðar féll hann fyrir eigin ævintýramennsku, hann hafði ætlað “að treysta á heppni sína” en óheppnin reið yfir með sænskum hreim. “Mr Prime Minister, what can you tell me about a company called Wintris?”

Við tóku kosningar og enn meira kaos, síðan pattstaða, loks endalausar stjórnarmyndunarviðræður, uns annar lukkuriddari tók við landsins taumum: Bjarni Benediktsson. Fljótt kom þó í ljós að riddarinn sá var enginn Napóleon og heldur enginn Sigmundur Davíð. Tómleikinn varð allsráðandi, við vorum enn á ný komin með með ríkisstjórn án stefnu (rétt eins og sú sem lauk sínum ferli með því leita á náðir Guðs) og forsætisráðherra sem var huggulegur að sjá en hafði lítið að segja, hugðist stjórna án þess að hafa nokkra sýn, hvað þá hugmyndir, en ætlaði þess í stað “að treysta á heppni sína”.

Því hvað sem má um Sigmund segja hafði sá maður þó alltaf einhver plön og var alltaf að semja lög. Í samanburðinum var Bjarni Ben eins og Andrew Ridgeley, ekkert í gangi nema þessi árlega skíðaferð þarna í Alpana, jú og svo golfspretturinn í Flórída.

En svo kemur allt í einu upp vandamál. Og hvað gerir lukkuriddarinn þá, annað en “að treysta á heppni sína”? Í allt sumar virtist ekkert vera í gangi nema þetta eina mál sem einn maður hélt gangandi vegna þess að það brann svo ógnarheitt á honum. En það varðaði nú samt fullt af fólki, heilu fjölskyldurnar, brotaþolarnir supu hveljur, fylgdust með í fjarska, eða grétu í sínu rúmi, brotaþolar uppreistra níðinga jafnt sem annarra, þetta mál var gríðarlega stórt, þótt það léti lítið yfir sér og kæmist fyrir á herðum eins hugaðs manns. Kynferðisofbeldi er ein stærsta meinsemdin í samfélaginu og hér horfðum við upp á heilan stjórnmálaflokk gera lítið úr því. Það var auðvitað stórmál. Pólitíkin virtist hinsvegar engan veginn kveikja á þessu og aðeins einn stjórnmálamaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Pírati, hafði hátt, en var reyndar studd af öðrum, Svandísi Svavarsdóttur, VG. Aðrir tóku ekki til máls, virtust ekki skilja alvarleika málsins, virtust ekki skynja það sem í vændum var, enginn rann á ýldulyktina þótt hana legði langar leiðir…

Á meðan gat valdaflokkurinn treyst á þögnina og heppnina, sjálfsagt myndi þessi Bergur þarna Þór, “eða hvað sá ágæti maður heitir”, gefast upp fyrr eða síðar. Bjarni Ben sat með þennan illa lyktandi og mygluvolga blóðmörskepp í kjöltu sér, og var nú orðinn lamaður af döngunarleysi, var jafnvel hættur að halda ríkisstjórnarfundi, verkleysi sem annar dáðlaus forveri hans í starfi hafði þó verið dæmdur fyrir í Landsdómi.

Auðvitað vissi hálfur flokkurinn af því að faðir forsætisráðherrans hafði kvittað upp á fyrir óforbetraðan barnaníðing. Sigríður vissi, ráðuneytið vissi, Bjarni vissi, og auðvitað vissi Brynjar líka, og samflokksmenn flestir. Við trúum ekki öðru. Því þau umgengust málið eins og slímugan sláturkepp og þorðu ekki einu sinni svo mikið sem líta á hann, en mættu á nefndarfund með bundið fyrir augun.

Auðvitað hafði fólk samúð með manni sem kemst í bobba fyrir syndir föður síns en þegar sá maður er forsætisráðherra landsins horfir málið öðruvísi við, valdið á ætíð að hlýða almannahagsmunum.

Og allt var þetta líka eintómt yfirvarp og engin stoð í lögum fyrir því að leyna þessum gögnum, engin ástæða heldur, önnur en sú að vernda fínustu fjölskyldu landsins, fjölskyldu forsætisráðherrans sem með þögn sinni sýndi hundruðum og þúsundum brotaþola kynferðisofbeldis einstakan tilfinningakulda. Á meðan Bjarni talaði um rétt níðinganna til “að endurheimta ýmis borgaraleg réttindi” talaði Brynjar um “að til væru verri glæpir”. Á meðan fengu fjölskyldurnar “eitt taugaáfall á dag” eins og Bergur Þór Ingólfsson lýsti svo átakanlega.

Svo kom að því að keppurinn sprakk í höndum Bjarna, lyktin fyllti ríkisstjórnarherbergið og Björt var fljót að stökkva á dyr. Hann sat einn eftir. Ríkisstjórn Íslands féll vegna þess að forsætisráðherra hafði reynt að þagga niður mál tveggja barnaníðinga. Ríkisstjórn Íslands féll vegna barnaníðingahneykslis. Þannig var sagan og þannig birtist hún í erlendum miðlum, svo margir supu hveljur heima við. Þetta virtist hreinlega vera of átakanlegt fyrir litla þjóð, of sjokkerandi, allt í einu var litla saklausa Ísland blettað af barnaníði. Enn á ný höfðu stjórnmálamenn borið hróður landsins út um heiminn, eða hitt þó heldur. Fyrir ári síðan urðum við heimsfræg fyrir það afrek að hálf ríkisstjórnin var í Panamaskjölunum, nú vorum við aftur fræg vegna þess að hluti hennar var á bandi barnaníðinga. Ráðherrarnir voru það vegna þess að það hentaði þeim, vegna þess að það hentaði þeim ekki að vera á bandi brotaþola. Og það var heimsfrétt.

Fyrstu viðbrögð voru: Nú byrjar Panama-ballið aftur. Nú hrökklast Bjarni frá eins og Sigmundur. Nú fær hann sömu meðferð í fjölmiðlum, nú verður þjóðin aftur jafn reið. En nei, Bjarni þagði bara áfram “og treysti á heppni sína”. Birtist svo um síðir og hélt blaðamannafund sem var þó enginn fundur, heldur einhverskonar einræða Hamlets prins í Valhöll, auðvitað ekki jafn mergjuð og ekki jafn djúp og orginallinn, en einræða sem einhver hafði samið fyrir hann og hann síðan lært á nokkrum klukkustundum. Engar spurningar voru leyfðar, engar spurningar komu. Ekkert um barnaníðinga, ekkert um þöggun, ekkert um sárin sem aldrei gróa.

Daginn eftir var hann svo mættur á Bessastaði og talaði líkt og sá sem einhver völdin hefur, skaut á allt og alla og skammaði þing og þjóð fyrir að kjósa ekki rétt og vera ekki nógu svona og hinsegin, flokkar væru of litlir og það væri svo þreytandi að vera eini stóri. Nú stóð hann frammi fyrir nokkrum hljóðnemum en aftur fékk hann engar erfiðar spurningar, ekkert um ástæður stjórnarfalls og þingrofs, ekkert um barnaníðinga, ekkert um hugsanlega afsögn, ekkert um hneykslið sjálft. Og það, kæru vinir, er í raun stærsta hneykslið í þessu öllu saman.

Einhverra hluta vegna hafa fjölmiðlar heykst á því að fara með Bjarna Ben í gegnum þann hreinsunareld sem þeir kveiktu fyrir Sigmund Davíð. Hér var enginn sænskur ofurblaðamaður til að hjálpa, og því var Bjarni ekki plataður í viðtal eins og Sigmundur, hann fékk ekki spurninguna: “Mr Prime Minister, what can you tell me about a man named Hjalti?” Áhrifin urðu því minni. Samt er mál Bjarna mun verra og alvarlegra en mál Sigmundar var. Sá maður faldi peninga fyrir þjóð sinni en Bjarni kvaldi heilu fjölskyldurnar í borg og fjörðum, heima og erlendis. Hvers vegna fær þessi forsætisráðherra aðra meðferð en hinn? Vegna þess að hinn var þybbinn en þessi spengilegur? Er hér á ferð einhver dulin virðing og meðvirkni með myndarlega manninum, týpunni sem hefur leikið aðalhlutverkið í öllum kvikmyndum okkar daga? Þorðu fréttamenn ekki í Bjarna? Þora stjórnmálamenn ekki í hann heldur? Þorir enginn að nefna orðið barnaníð við svo fínan mann? Berum við enn svo dulda virðingu fyrir þessum valdaflokki sem hefur mannað alla dómstóla hér á landi og öll ráðuneytin, skipað alla lögreglustjóra og hefur ítök og þingmenn, fyrrverandi og núverandi, á nær öllum lögmannastofum landsins? Þorum við þess vegna ekki að nefna sannleikann við þessa menn? Jafnvel ekki nú þegar samtryggingarkerfi þeirra hundrað úreltu karlmanna, með allar sínar hærugráu ærur uppristar og kviðristar af þeirra eigin hnífum, hefur opnast og stendur uppljómað af hugrekki nokkurra stúlkna?

Hjaltamálið sýnir okkur þó að við höfum þokast fram á veginn sem þjóð, eins og Mikael Torfason benti á í mögnuðu viðtali á Harmageddon nýverið, en pólitískt séð erum við því miður enn á sama stað. Allt tal um barnaníð í samhengi við stjórn landsins er talið of … já, of hvað? Nú er bráðum vika liðin frá því að sprengjan sprakk en enn hefur enginn spurt forsætisráðherra hvers vegna hann kaus að þegja af sér gerðir föður síns og reyna að þagga niður í þeirri mikilvægu baráttu sem hlaut nafnið #höfumhátt. Og enn er hér engin krafa um afsögn.

Í kosningunum fyrir ári síðan var lítið rætt um sjálfa ástæðu þeirra, þá staðreynd að valdastéttin á Íslandi geymdi sínar allra hæstu upphæðir í skattaskjólum, lausar af krónuklafa. Það var áberandi pínlegt að í lokaumræðuþætti RÚV kvöldið fyrir kosningar var orðið Panama ekki nefnt einu orði. Birgitta Jónsdóttir hafði greinilega óttast þetta og mætti því sjálf með skilti sem á stóð Panama, og hlaut skammir fyrir frá penheitapostulum allra flokka (!) Þessi kappræðuþáttur var reyndar dapurleg endurtekning á lokaþættinum í fyrstu kosningunum eftir Hrunið mikla, en þá var heldur enginn flokksformannanna spurður út í þann heimsviðburð, sjálfa höfuðástæðu kosninganna. Fréttamenn RÚV voru sem fyrr búnir að gleyma öllu því óþægilega sem gerst hafði. Og nú siglum við inn í enn einar kosningarnar þar sem fjölmiðlar virðast ekki ætla að þora að nefna ástæðu þeirra af einhverri fjandans tillitssemi við háttsett fólk.

Meðvirknilaust Ísland virðist ekki í augsýn.

Við erum lítil þjóð og allt það, með litla og lélega fjölmiðla, en fjandinn hafi það, fólk á samt að geta séð aðalatriðin frá aukaatriðunum, og fjandinn hafi það, allra smæsti fjölmiðillinn er sá sem stendur sig best. Stundin var ein um að þrýsta á dómsmálaráðuneytið um að birta meðmælabréfið með Hjalta og lét sinn blaðamann standa í anddyri þess auma batterís heilu dagana í von um að þessir æðstu þjónar íslenskra laga færu að lögum.

Kæra fréttafólk og kæra stjórnmálafólk.

Hugsið ykkur nú aðeins um. Hugsið ykkur hversu mikið hugrekki og hversu mikið andlegt þrek þarf til að segja frá kynferðisofbeldi, daglegum nauðgunum af hendi stjúpföður, barnaníði, í fjölmiðlum. Hugsið ykkur sársaukann sem að baki liggur, hugsið ykkur alla þá vegferð, frá ýtrustu niðurlægingu til sárasta þunglyndis og þaðan til uppreisnar og sjálfsvirðingar. Hugsið ykkur öll þau ár (árin sem áttu að vera þau bestu!) full af kvöl og angist. Ungar stúlkur, sá hópur samfélagsins sem minnst vægi hefur í umræðu dagsins, þær stíga fram, þær sýna þor, þær bera sár sín, þær sýna hugrekki sem við hin getum aldrei náð upp í.

Hugsið ykkur það.

Má þá ekki biðja ykkur um að sýna þeim sárum og því hugrekki örlitla virðingu? Má þá ekki biðja ykkur um að sýna brotabrot af því hugrekki sem stúlkurnar hafa sýnt? Má þá ekki biðja ykkur um að þora að ávarpa sár þeirra við þann sem sneri í þær baki og hellti í sársauka þeirra einu taugaáfalli á dag í tvo heila mánuði?

Og má ekki biðja þann mann um að segja eitthvað við þær og um þær sem hann kvaldi með síngirni sinni og heigulskap? Eða erum við bara alveg vonlaus þjóð?

#höfumhátt