Kötturinn í Kanada

Erindi haldið við setningu Þýðendaþings, á vegum Miðstöðvar íslenskra bókmennta, í Veröld – húsi Vigdísar Finnbogadóttur, 11. september 2017

Forseti Íslands, Frú Vigdís Finnbogadóttir, fagra Veröld, háttvirtur menntamálaráðherra, hæstvirtu þýðendur, kæru vinir!

Við hittumst hér á flekaskilum tímans, þar sem lesturinn og lífið núast saman svo úr verða allmargir skjálftar. Skjálftar sem skelfa.

Því við höldum áfram að skrifa / og þið haldið áfram að þýða / á meðan fólk heldur áfram að lifa / og detta stafrænt í’ða.

Við erum stödd í gjörbreyttu umhverfi. Við erum ekki lengur að keppa við okkur sjálf og sjónvarpið, Íslendingasögurnar og Laxness, heldur erum við nú líka að keppa við Matta og Gyðu, þau voru nefnilega að panta sér móhító, á strandbarnum þarna í Máritaníu, sjáðu, hérna er mynd af glösunum. Sólin skín fallega í gegnum klakana og mér sýnist hún vera naglalökkuð á tánum.

Enn skæðari samkeppnisaðili er þó kötturinn í Kanada. Sjáðu, hann er fastur hérna á húddinu á spíttbátnum og svo þegar báturinn klessir á bryggjuna, sjáðu… þá þeytist hann, hérna, þú verður að sjá þetta…

Kötturinn í Kanada er verstur því hann hefur ekki aðeins fangað athygli lesenda heldur höfundarins líka. Og hann sem er staddur í miðjum kafla, en mundi allt í einu að hann þurfti að svara tölvupósti frá þýðandanum sínum en kom þá óvart við á leiðinni, á Facebook, af því hún var opin, og sá þar að fólk var að missa sig yfir þessum ketti þarna í Kanada og var, áður en hann vissi af, orðinn spenntur að sjá hvar hann myndi lenda, eftir að hann þeyttist af húddi spíttbátsins.

Bókabransafólk í New York segir mér að þar í landi sé jafnvel bransinn sjálfur hættur að lesa, þar lifir fólk bara frá einu Trömptísti til þess næsta, það þarf að hneykslast, skrifa status, vera reiður, plana mótmæli, en hugsa svo allt upp á nýtt þegar næsta tíst birtist tveimur tímum síðar. Enginn hefur lengur eirð í sér til að setjast niður með bók.

Og stundum fæ ég á tilfinninguna að hér á landi séum við ekki að þessu fyrir annað en einhverja óljósa framtíð. Á hverju hausti klárum við nýja bók og trítlum síðan með hana inn á Þjóðarbókhlöðu og stingum henni þar á okkar stað, með þá von í brjósti að einhver komi eftir 300 ár og opni hana. Við erum eins og geimflaugastjórar hjá Nasa, sífellt að senda skilaboð út í geiminn í von um að það finnist læsi á Plútó…

Já, við erum semsagt í samkeppni við Matta og Gyðu í Máritaníu, Köttinn í Kanada, herra T í Washington að ógleymdri nýjustu kærustu bókmenntanna, Netflix. Netflix kom til Íslands í fyrra. Og nú skiptir engu hvort maður situr með háskólafólki í ráðstefnudinner eða hittir kollegana á ljóðakvöldi í Iðnó, allir fara lóðbeint að tala um Netflix. “Ég var að klára season tvö af Stranger Things. Ótrúlega góðir þættir.” – “En tékkaðu samt endilega á Black Mirror, þetta eru ekki nema fimmtán þættir.” Ekki nema fimmtán klukkutímar. Það er tveggja vikna vinna. Klukkutími á dag. Sem annars færi í lestur. Og svo er það bókin sem breyttist í dreka, Game of Thrones, það eru ekki nema 67 þættir: Eins og hálfs árs vinna.

En við höldum samt áfram að skrifa og þið haldið áfram að þýða þótt enginn sé lengur að lesa.

En… þegar við stöndum frammi fyrir svo breyttum aðstæðum, þegar við stöndum á flekaskilum og skjálftarnir eru orðnir 5 á Rilke, þá er nauðsynlegt að standa saman. Og nú þegar við erum að missa okkur sjálf og þjóðina inn í ólæsið er mjög mikilvægt að þeir sem einhverju ráða sýni viðbrögð og sé ekki sama. En því miður er það stundum upplifun okkar sem sitjum í stjórnum félaga í bókabransanum að við þurfum ekki aðeins að berjast við köttinn í Kanada heldur líka menntamálaráðuneytið og ríkisstjórnina.

Afhverju erum við ekki öll að róa í sömu átt? Eru hagsmunir okkar ekki þeir sömu? Að hér verði áfram töluð íslenska, að hér verði áfram skrifað á íslensku, að hér verði áfram lesið á íslensku?

Afhverju þurfum við þá að standa í þessu eilífa ströggli við ríki og fólk? Afhverju þurfum við að verja það að við séum á launum við að skrifa? Pabbi var ríkisstarfsmaður alla sína tíð, hannaði og teiknaði brýr um allt land. Allir voru sammála um að það þyrfti brýr, yfir ár og læki, svo við kæmumst eitthvað áfram sem samfélag. Erum við ekki líka sammála um að við þurfum ljóð og sögur, yfir daga og vikur, svo við séum til einhvers sem samfélag? Þetta er allt saman vinna og vinna krefst launa. Við þurfum bæði Vegagerð og Ljóðvegagerð.

Hættum að horfa í þann aur, aurinn sem okkur er fenginn og aurinn sem við erum ötuð. Verum stolt af okkar lifandi arfleifð, hinu eilífa framhaldslífi íslenskra bókmennta, því þær eru svo sannarlega eitt ógnarstórt ævintýri sem telur fleiri þætti en finnast á Netflix, við erum stödd í season 787. (Hér hefur verið skrifað frá 1230.)

Og það er einmitt þess vegna sem við erum samankomin hér í dag. Hér sitja hjá okkur 30 þýðendur sem eyða vinnudögum sínum, í Mantova, Caen, Berlín og Gautaborg, í að framreiða þetta ævintýr fyrir sínar þjóðir. Og það í sjálfu sér er ótrúlegt ævintýri.

Þegar ég gaf út mína fyrstu bók, árið 1990, var staðan önnur. Laxness var sæmilega þekktur erlendis en það heyrði til tíðinda þegar bækur annarra höfunda voru þýddar. Ég man að þegar Vigdís Gríms kom fyrst út í Svíþjóð þótti það mikill viðburður. Um líkt leyti var gerður skurkur í starfslaunamálum, sjóðurinn var efldur og fleiri komust að. Pólitíkin markaði stefnu og setti sér langtímamarkmið. Og hver var árangurinn? Samkvæmt tölum frá Landsbókasafni hafa frá árinu 1990 til dagsins í dag verið þýddar yfir á erlend mál 50 íslenskar ævisögur, 192 íslenskar barnabækur, og, haldið ykkur fast, 1312 íslenskar skáldsögur, þrettán hundruð og tólf. Það gera tæplega 50 á ári.

Nú getur einhver sagt: Og hvað með það? Erum við eitthvað merkilegri fyrir vikið? Skiptir þetta einhverju máli fyrir þjóðarbúið, þannig séð?

Kannski ekki. Kannski er best að svara því til að það sé eins með þetta og fótboltalandsliðið og árangur þess. Það er ekki hægt að sanna að það skipti máli vegna þess að það skiptir öllu máli.

Því innst inni vitum við það öll: Hagtölur og efnahagsstærðir eru góðar sem slíkar. En þær segja mjög takmarkaða sögu. Þær segja jafn mikið um þjóðina og aflesturinn af rafmagns- og hitamælunum segir um heimilislífið.

Þess vegna verðum við að skrifa sögur og gefa út sögur og lesa sögur. Þess vegna megum við ekki gefast upp. Þess vegna verðum við að verjast. Og þess vegna þurfa ríkisstjórnin og sveitarfélögin að vera með. Hvað þarf að gera? Það þarf

A) fella niður virðisaukaskatt af bókum,
B) stórefla innkaup til skólabókasafna,
C) ríkisstyrkja rekstur sjálfstæðra bókabúða
D) ríkisstyrkja rekstur sjálfstæðra bókaútgefenda (Þetta tvennt gera Frakkar til að vernda sína “örtungu”, 66 milljóna þjóð…)
E) stórefla fjárútlát til íslenskunáms við erlenda háskóla (til að búa til fleiri þýðendur)
F) auka enn við starfslaunasjóði rithöfunda og barnabókahöfunda
G) koma upp Bókmenntahúsi í Reykjavík, svona eins og finna má í öllum alvöru borgum
H) klára Hús íslenskra fræða og gera það að okkar Louvre, eins og Andri Snær lagði til fyrir hundrað árum
I) breyta Blindrabókasafninu í Ríkisútgáfu hljóðbóka þar sem allur arfurinn væri aðgengilegur í ókeypis hljóðformi og nýjar bækur til sölu, svo þar verði smám saman til bókabrunnur þjóðarinnar, því blindur er bóklaus maður og þegar þjóðin er orðin bóklaus þarf hún öll sitt Blindrabóksafn.
J) Já, og svo mætti forsetinn alveg hengja eina og eina fálkaorðu á þetta fallega fólk sem situr hér, þessa sönnustu sendiherra Íslands.

Íslenskan á allt þetta skilið. Í alvöru talað. Eða ætlum við að hætta að vera “bókaþjóðin”. Erum við ekki þekkt sem “sögueyjan”? Hér vantar stórhug, stolt og stefnu.

Því eins og staðan er núna þá hefur maður á tilfinningunni að allt þetta stóra ævintýri (1312 þýddar skáldsögur) hafi meira og minna gerst af sjálfu sér, við erum soldið eins og prýðilega gott fótboltalið með engan þjálfara. Við komum inn í búningsklefann í hálfleik og erum allt í einu farin að rífast við einhvern mann sem við héldum að væri nýji þjálfarinn okkar. Þetta gengur náttúrlega bara ekki.

Kæru vinir. Í morgun, áður en ég kom hingað, var ég á foreldrafundi í Austurbæjarskóla, og þar fór kennarinn yfir nýjar reglur um heimanám. Krakkarnir í níunda bekk eiga að lesa heima á hverjum degi, skáldsögu að vild, fimmtán mínútur á dag. Þetta eru krakkar sem verða 15 ára síðar í vetur. Okkur foreldrunum leist vel á þessa reglu og nú legg ég til að hún nái til allra landsmanna: Í baráttunni við köttinn í Kanada gerum við okkur að reglu að lesa á hverjum degi í jafn margar mínútur og árin okkar telja. Ég mun þannig lesa í 58 mínútur. Guðni Th. þarf ekki að lesa nema í 49 mínútur, en Vigdís mín … ég veit nú reyndar að þú ferð létt með þennan tæpa einn og hálfan tíma … Og svo værum við öll mjög fegin ef krakkarnir á vefmiðlunum fengjust til að lesa bók í 20 mínútur á dag.

Já. Gerum það að reglu: Svo lengi les sem lifað hefur.

Því aðeins með lestri fáum við vökvað öll blóm íslenskunnar, líka þessi sjaldgæfu, gömlu og skrýtnu. Tungumálið er internet sálarinnar.

Og ég meina, við verðum að varðveita íslenskuna því annars hefðu allir þessir góðu þýðendur ekkert að gera. Og það náttúrlega gengur ekki.

Loks þetta: Hvað varð um köttinn í Kanada eftir að hann þeyttist af húddi spíttbátsins?

Hann endaði útí mýri. Hugum að ævintýri. Góðar stundir.