Smá takkitakk um Ko Un, Krónborg, #metoo og tungusófa

Smá takkitakk um Ko Un, Krónborg, #metoo og tungusófa

Þakkarræða haldin við viðtöku menningarviðurkenninga RÚV, 4. janúar 2017

Kæra RÚV, forseti Íslands, menntamálaráðherra, kollegar, vinir og kunningjar.

Ég segi nú bara takk fyrir mig og hljóma þá sjálfsagt eins og barn sem þakkar sína jólagjöf, gengur þvert yfir stofuna og faðmar frænda eða frænku, segir “takk”, og gengur síðan til baka hugsandi: “Hvaða fólk er þetta? Afhverju var ég að fá gjöf frá þeim?”

Þegar hringt var í mig var ég staddur í eftirfæðingarvímunni miðri, við vorum nýkomin heim með glænýtt barn. Og þar sem ég stóð yfir vöggunni, lagði á og leit á barnið, var það fyrsta sem kom upp í hugann:

“Bókmenntir? Hvað er það nú eiginlega?”

Ég var alveg búinn að gleyma þessu fyrirbæri. En já, hvað eru bókmenntir? Skemmtilegasta svarið er auðvitað: Ég bara veit það ekki. Við erum enn að reyna að finna út úr því. Þess vegna sitjum við ein við skrifborð, mánuðum saman.

En svo er það leiðinlegi hlutinn af manni sem reynir að svara þessu “málefnalega”. Jú, bókmenntir eru fréttastofa sálarinnar, maðurinn lifir ekki á tuði einu saman. Æ, nei. Reynum aftur: Já, bókmenntirnar eru sjálft bókbandið í sögu heimsins, án þeirra lægi mannkynssagan á lausum blöðum á dreif um skurði og girðingar veraldarinnar. Bókmenntirnar eru hið mikla…

Nei, við verðum að passa okkur, við megum ekki gera bókmenntirnar of hátíðlegar. Ég meina, þær er ekkert merkilegra fyrirbæri en önnur. Þetta er bara svona fólk sem getur ekki sagt það sem það ætlaði að segja, eða kemur því ekki fyrir í einu kommenti, heldur fer heim til sín og kemur 18 mánuðum síðar til baka með 300 síðna bók: “Það er þetta sem ég meinti sko.”

En yfir vöggunni mundi ég líka eftir ljóðinu hans Ko Un, kóreska skáldinu sem Gyrðir þýddi fyrir þessi jól (hafi hann kæra þökk fyrir, sannarlega einn af bókmenntaviðburðum ársins), já, þessu litla stutta ljóði sem ég las fyrir mörgum árum, staddur í Kóreu, en hef ekki fundið síðan, og get hvorki gleymt né munað orðrétt, kannski var það svona:

​Undir heiðbláum himni
​liggur nýfætt barn

Svona geta bókmenntirnar súmmerað lífið upp, fangað það í einni mynd, þannig að við sjáum það upp á nýtt. Svona geta þær verið tærar og einfaldar, rétt eins og þær geta líka verið hlaðnar og flóknar…

Á liðnu hausti kom ég í Krónborgarkastala á Helsingjaeyri. Við fengum þar nokkrir norrænir höfundar leiðsögn um þessa “höll Hamlets” og þar kom fram að til væru heimildir fyrir því að kollegar Shakespeares, vinir hans í leikhópnum, hefðu gist þarna á sínum tíma og leikið sýningar. Síðan sagði gædinn okkur frá hallarveislunum: Þarna sat kóngurinn og þarna voru leikritin flutt, og í hvert skipti sem hans hátign lyfti glasi var blásið í lúðra og skotið af fallbyssunum fyrir utan þannig að rúður brotnuðu svo glerbrotum rigndi yfir gesti og var þá fyrst orðið kátt í höllinni. Og þar sem við stóðum þarna á hallargólfinu og hlýddum á þessa frásögn flettum við samstundis upp í Hamlet í huganum og fundum þar þessar línur í byrjun verks:

​​HAMLET
​​Konungur heldur vökuveislu í nótt
​​með drykkjusvalli, skálaglaum og sköllum
​​og hvenær sem hann svelgir í sig teyg
​​af víni, bylur bumba og horn til dýrðar
​​hans drykkjuhreysti.

Og allt í einu skildum við soldið hvernig leikverkið varð til, allt í einu fannst okkur gædinn vera að lýsa samkvæmi sem verið hafði hér í gærkvöldi: Leikararnir, vinir Shakespeares, höfðu þar orðið vitni að þessum sérdanska borðsið sem þeir síðan sögðu skáldinu frá. Og semsagt: Leikrit skrifað árið 1600 um mann sem fæddist árið 500 og ritað var um á Íslandi árið 1000, sem og Saxo hinum danska rétt um 1200, en Shakespeare lét búa í þessari höll sem reist var 1585 þar sem við stóðum svo árið 2017.

Allt í einu runnu þau ártöl saman, allt í einu var allur tími horfinn, allt í einu varð manni ljóst að bókmenntirnar eru tímaeyðir. Þær eru sá spreybrúsi sem spreyjað getur hvert ártal burt, svo leyfist manni að þreifa um stund á eilífðinni.

En bókmenntirnar eru líka í stöðugri umbreytingu, sem og álit okkar á þeim. Hvernig mun til dæmis metoo-byltingin leika þær? Þurfum við ekki að endurskoða söguna? Og spyrja spurninga: Hvernig stendur á því að bæði Málfríður Einarsdóttir og Guðrún frá Lundi eru enn vanmetnar stærðir í íslenskum bókmenntum? Afhverju var Guðrún Helgadóttir fyrst nú að fá heiðurslaun? Fá kvenhöfundar sem vinna úr efni sögualdar öðruvísi viðtökur en karlar sem það gera? Afhverju eru nýjar skáldsögur kvenna enn sagðar skvísubókmenntir, “chick-lit”, á meðan okkar voru aldrei merktar “dick-lit”? Og já, eru stelpurnar enn að fá skvísubókarkápur á sínar sögur? Ég bara velti þessu upp í framhaldi af því sem Yrsa sagði um daginn, ég sem ólst upp í heimi þar sem strákar lásu karla, ég sem enn á langt í land með að ná fullri jafnlestrarvottun, ég sem stend hér sem höfundur nr. 102 til að hljóta þessa viðurkenningu sem aðeins 22 konur hafa hlotið.

Að lokum nokkur orð um bókmenntaumhverfið sem manni finnst stundum vera að leysast upp. Fyrir jólin gerðist nefnilega það sem maður hélt að aldrei myndi gerast hér á landi: Að höfundar gáfu út skáldsögur án þess að fá um þær eina einustu umsögn. Hvorki í blöðum, útvarpi né sjónvarpi, ekki einu sinni á netinu. Ég veit að RÚV er að gera vel við okkur hér í dag en ég verð samt að brýna fólk aðeins, því ef einhverjum ber skylda til að fjalla um nýjar bækur þá er það Rás 1. Ég meina, hér fá allar nýjar Netflix-seríur sína umfjöllun, sem er vel, og reglulega er haldið upp á fertugsafmæli erlendra popp-platna, en okkar þróttmikla eigin menning má þó ekki gleymast. Því eins og áramótaskaupið sýndi okkur þá er tungusófinn helsta ógnin við íslenska tungu.

Ég spurði í upphafi “Hvað eru bókmenntir?”. Ég vona að þið séuð engu nær. Og segi svo aftur “takk fyrir mig”.