Tröllin bakvið tjöldin
Auðvitað sleit Framsókn. Auðvitað átti Kata Jak aldrei að verða forsætisráðherra. Auðvitað áttu Píratar aldrei að fá sæti í ríkisstjórn. Auðvitað átti VG aldrei að verða leiðandi afl. Auðvitað fáum við aldrei nýja stjórnarskrá. Auðvitað verða aldrei aftur neinar þjóðaratkvæðagreiðslur. Auðvitað átti þetta aldrei að ganga upp. Auðvitað var þetta bara leikrit.
Því Sigurður Ingi ræður ekki eigin flokki. Þar er annar sem ræður. Það er sjálfur myrkrahöfðinginn í Skagafirði, Þórólfur hinn svarti. Hann ræður öllu í Framsókn. Hann á ekki bara Ásmund Einar með kennitölu, jakkafötum og búpeningi heldur þau hin líka. Í Framsókn fer enginn fram án samþykkis Þórólfs hins svarta. Sagan geymir ráðherrana sem reyndu slíkt, þeir eru ýmist komnir í aðra flokka eða létu sig hverfa úr pólitík. Enginn óhlýðnast Þórólfi. Og dettur einhverjum í hug að kaupfélagsstjóri KS ætlaði í stjórn með Pírötum?
Auðvitað ráða gömlu tröllin ennþá öllu á Íslandi, tröllin bakvið tjöldin.
“Davíð hringir í Lilju Alfreðs á hverjum degi,” segja þingmenn í prívatsamtölum. Og Davíð hringir í Sigmund kvölds og morgna, það vissum við fyrir. Hvað hringir hann í marga þingmenn í eigin flokki? Áður en Bjarni Ben varð formaður var hann fríþenkjandi Evrópusinni og lét sig dreyma um evru. En eftir formannskosninguna varð hann múlbundinn af Mogganum, Davíð og LÍÚ. Um leið og þú verður formaður flokksins ertu sviptur sjálfsforræði. Það er sorglegt en því miður satt: Þetta “unga fólk” er ekki að akta á eigin vegum, það hlýðir bara gömlum tröllum.
Þess vegna eru íslensk stjórnmál bara leikrit. Leikrit sem enginn skilur, fullt af óskiljanlegum setningum eins og “okkur fannst þessi meirihluti of tæpur en töldum þó ekki rétt að fá fleiri flokka að viðræðunum.”
Þurfum við ekki öll út á svalir að garga smá?
Sjórinn á Sjalla, landið á Framsókn. Við hin eigum okkur víst bara sjálf. En það eru ekki sjómenn og bændur sem eiga flokkana tvo, heldur hagsmunirnir, hagsmunir nokkurra ríkra og roskinna karla. Og þeir munu aldrei leyfa breytingar á sínum kerfum. Hér eru milljarðar í húfi. Milljarðar. Enda var öllu til kostað. Skrímsladeild Valhallar var kölluð út á neyðarvakt. Nafnlausir netsnillar sátu þar í felum bakvið skjái sína nótt sem nýtan dag og létu öll sætustu skrímslin í flokknum segja sér fyrir verkum, þau Óla Björn, Andrés, HHG, Arnalds & co, þetta gamla góða teymi úr forsetabaráttu Davíðs. Og þá var gott að geta seilst í gamla fæla sem Kjartan Gunnarsson geymir í forláta skjalaskápum í flokksástarhreiðri sínu á Blómvallagötu. (Já já, þið lásuð rétt, Kjartan gamli Gunnars. Tröllin hafa vakað í þúsund ár…) Og saman dældi þessi hópur út ofurpródúseruðum og rándýrum myndböndum á YouTube og Facebook, til að deyfa fjöldann, til að svæfa massann, til að hræða hann frá “Skatta-Kötu” og öllum hinum vondu vinstrimönnunum. Sú trömpíska aðför að lýðræðinu var í boði XD og LÍÚ/SFS. Bjarni Ben hefur enn ekki svarið skítinn af sér, hið svipta sjálfsforræði leyfir það ekki. Í Silfrinu daginn eftir kosningar sagði hann að ekki mætti “slökkva á þessum hátalara.”
Varla hefur okkar fólk geð í sér til að mynda stjórn með þeim strengja-Gosa?
Þegar milljarðar eru í húfi er ekki pláss fyrir neina tilraunastarfsemi, engin frávik. Við hin sem fylgjumst með pólitík og styðjum flokkana okkar erum bara börn í samanburðinum við hagsmunaverðina, sjallaskrímslin og allt þeirra fé. Þeir sitja ekki bara og horfa á sjónvarpið á meðan vinstriflokkarnir ræða stjórnarmyndun. Þeir búa til fréttir, um Pírata og ráðherrakostnað, eða senda sína Moggablaðamenn á reynsluminnsta hlekkinn og veiða upp úr honum fyrirsagnir með lúmskum hætti. Hér er allt gert til að ala á úlfúð og vantrausti, allt til fundið sem spillt getur fyrir, og ef í hart fer er svo bara hringt í Lilju …
Við erum nefnilega ekki að spila sama leikinn, við erum ekki að díla við neina drengi, við erum að tala um tröll. Maður heyrir þau hlæja um leið og okkar góðu vonir sigla í strand. Við erum svo mikil börn, við látum þetta yfir okkur ganga, ár eftir ár, áratug eftir áratug. Við leyfum þessum öflum að halda sínu tröllataki á þessu blessaða þjóðfélagi okkar á meðan við dreifum okkur í enn fleiri flokka og okkar bestu synir og bestu dætur af Twitterkynslóð djóka sig inn í skoðanaleysið eða máta sig upp við Alþýðufylkinguna í skemmtilegu stikk-frí-gríni.
Hér mun því aldrei breytast neitt. Ég meina, hér er ekki einu sinni hægt að breyta klukkunni og sjá þó allir hversu vitlaus hún er. Hér bara má engu breyta. Landið er í tröllahöndum og mun ekki losna fyrr en … ja, ekki áður en við deyjum allavega. Sjálfur er ég að nálgast sextugt (og búinn að skrifa hundrað og tíu svona greinar) og enn eru þeir geðstirðu valdasjúklingar, Davíð Oddsson og Þórólfur hinn svarti, við völd, eins og þeir hafa verið frá því maður fékk pólitíska vitið. Það skiptir engu þótt nýjar kynslóðir komi fram á sviðið, kynslóðir sem eru jafnvel áratugum yngri en maður sjálfur, þær láta samstundis bræða sig í sama gamla mótið. Því allir helstu spillingarspaðar fortíðarinnar áttu víst börn sem nú eru orðin að illa spilltum stjórnmálamönnum, þetta endurnýjar sig bara samkvæmt því ofuríslenska lögmáli: Það er vont en það venst.
“Það sem okkur vantar hér er að efla traust á íslenskum stjórnmálum,” sagði Lilja í morgunútvarpinu í gærmorgun og maður ældi smá í hálsmálið sitt. Bara smá. Hún var nýbúin að afhjúpa alvarlegar þriggja daga viðræður alvöru fólks sem lagði hart að sér og meinti allt sem það sagði, hún var nýbúin að afhjúpa þær sem leikrit. Hvernig í ósköpunum getum við fengið traust á þessu liði? Hvernig getum við nokkurn tíma fengið traust á bláa skrímslaflokknum sem lét setja hér lögbann fyrir kosningar, lögbann á vondar fréttir af formanni sínum og forsætisráðherra? Sá sem gekk í það skítverk var frægur snati flokksins, kosningasvindlandi sýslumaður vestan af fjörðum sem hafði nú fengið höfuðborgarsvæðið úr hendi flokksins til að sýsla með. Samkvæmt landslögum er hann víst líka ábyrgur fyrir utankjörfundaratkvæðum, öllum þeim ágætu kössum, hvar skyldi hann hafa geymt þá fram að talningu? Og svo heyrir maður sögur um léleg innsigli á kjörkössum og kjörkassa sem fluttir eru á milli staða án lögregluverndar … úff. Nei, lýðræði, kosningar og kosningabarátta á Íslandi… þetta er bara orðið grín, og við látum okkur hafa það, eins og börn, og trúum því í korter að við fáum einhverju breytt, en erum svo vakin af glænýrri Lilju sem full er af gömlu blóði.
Og já já, sumir trúa því jafnvel að réttast sé að setjast í stjórn með þessu liði, þessu fólki sem lætur stjórnast af tröllunum bakvið tjöldin. Ég segi nei. Ég segi aldrei. Það er ekkert við þetta fólk að tala. Hversvegna ættum við að setjast í stjórn með flokki sem kóaði með barnaníðingi í þágu fjölskyldu formannsins, setti lögbann á fjölmiðla í miðri kosningabaráttu, stóð fyrir svívirðilegri og “nafnlausri” áróðursherferð í kosningunum (sem fjármögnuð var framhjá lögum um stjórnmálaflokka) og hefur formann sem ítrekað hefur logið að þjóðinni um gerðir sínar, faldi viðkvæmar skýrslur á viðkvæmum tímum, notaði stjórnmálatengsl sín til að bjarga viðskiptagróða fimm mínútum fyrir Hrun, og var að auki í Panamaskjölunum?
Auðvitað látum við það eiga sig, auðvitað komum við ekki nálægt slíku.
Látum þá frekar körlum skreytta hægriblokkina tromma fram með alla sína drauga, öll sín tröll og allar sínar brúður, alla sína akþunnu og geispandi Brynjara, alla sína rasísku Ásmunda, allar sínar stálhjörtuðu Sigríðar, alla sína Panamahatta og líka svo sinn heimsfræga Sigmund. Látum þau lyfta honum pundþungum upp í ráðherrastólinn á ný, Íslandi til alþjóðlegs athlægis, þar sem hann getur svo úthlutað sínum aflandsbréfum til almúgans. Þá loksins fellur spurningamerkið af fyrirsögninni úr Aftonbladet: “Nordens Nord-Korea?” Því hér gildir hið fornkveðna: Frekar þann versta en þann næstbesta. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, sem og hinn óstýriláti lausaleikskrói þeirra sem skírður var Miðflokkur, eru og verða í tröllahöndum. Þetta eru eitraðir flokkar. Sá sem sest í stjórn með þeim deyr í stólnum. Á staðnum.
Tröllin munu hvort eð er stjórna áfram, með eða án okkar. Það breytir engu hvort við komumst í bland við þau eða ekki.
Á meðan þau tóra verða ælan og öskrið okkar eina skjól.
Leave A Comment