Við höfum hátt

Texti við lag Gunnars Þórðarsonar
Stefanía Svavarsdóttir syngur

Í tíu pilsum
púluðum við
með prjón og hrífu
í kaþólskum sið.

Við lagðar vorum
af landshöfðingjum
og lífið ólum
í fjárhúsum.

(Svo mikið, svo mikið, svo mikið,
svo mikið fokking fokk!)

Við dóum saman
í Drekkingarhyl
og deildum tárum
við Útburðargil.

Við bárum harminn
um heiðar og fjöll,
í hjarta vonir
að sólin myndi skína á þau tröll.

Því Íslandssagan á ekki orð
um öll þau ljótu sálarmorð
því hér var bara
karlaþrungin
þögn í þúsund ár.

Við höfum hátt,
við höfum hátt,
við höfum hátt
og mikinn mátt!

Koma svo bræður og
koma svo systur og
segjum frá!

Raðmorðingi með þrjúhundruð nöfn
í símanum sínum, ungmeyjasöfn,
nauðgar einni, merkir svo við …
og barnaníðið blessar síðan ráðuneytið.

Smábæjargreifi kátur og klúr
með fjórtán ára frænku sinni fór út í skúr.
Hún gekk í sjó
og næstum dó
en ákvað svo
að kæra’nn,
þá fær hann
allan bæinn að baki sér
uns burt hún fer.

Nú er kominn tími til
að verði vatnaskil.
Yfir kaldan reiðisand
við erum komnar alveg band!
Þögnina við þolum ei!
Þorum! Segjum nei nei nei!

Nei!

Nei!

Við höfum hátt,
við höfum hátt,
við höfum hátt,
og mikinn mátt!

Og lagabullur
með bull út á kinn
þeir biðja okkur
að rétta sér hinn.

Þeir fatta ekki
að fokk númer tvö
færa þeir okkur
málsvarnardvergarnir sjö
sem endurtaka aftur og enn:
“Ég er ekki femínisti en…
konur þurfa
bara að vera
ennþá duglegri…”

Við höfum hátt,
við höfum hátt,
við höfum hátt
og mikinn mátt!

Við höfum hátt,
við höfum hátt,
við höfum hátt
og mikinn mátt!

Hallgrímur Helgason 2017